„Bleikur október er frábær og mikilvæg vitundarvakning því krabbamein kemur öllum við,“ segir Heiða Björk Jónsdóttir starfsmaður hjá Dögum til fjölda ára.
Heiða er 58 ára og hefur starfað sem þjónustustjóri hjá Dögum og ISS, forvera þess, frá 2008. Heiða greindist með brjóstakrabbamein árið 2021 og gekk í gegnum erfiða krabbameinsmeðferð en hefur verið krabbameinslaus frá því í byrjun árs. Heiða er nú að byggja sig upp eftir meðferðina og er í 30% starfi í móttöku Daga, sem hún kann vel við.
„Ég kunni alltaf vel við að vera þjónustustjóri en starfið í móttökunni hentar vel núna. Mér finnst æðislegt að mæta í vinnuna, hitta viðskiptavini og samstarfsfólk og spjalla um daginn og veginn. Að byrja að vinna aftur er frábært og mikilvægur þáttur í að byggja sig upp á nýjan leik eftir veikindin,“ segir hún.
Ætlar að fá sér tattú yfir örið
Heiða fann sjálf hnút í brjósti í júlí 2021. Í framhaldi fékk hún staðfesta krabbameinsgreiningu og fór í erfiðar lyfja - og geislameðferðir. Heiða er bjartsýn að eðlisfari og hélt í bjartsýnina í gegnum ferlið.
„Ég fer mikið í sund og tileinkaði mér ákveðna möntru með hverju sundtaki; ég er hraust, ég er sterk, ég get þetta! Þessa möntru fór ég með aftur og aftur í meðferðinni og það hjálpaði mér mikið. Ég er meira að segja búin að ákveða að tattúera hana á örið þar sem lyfjabrunnurinn var um leið og ég má,“ segir Heiða brosmild.
Tekur bleikan október alla leið
Bleikur október er mánuður vitundarvakningar um brjóstakrabbamein.
„Þetta er nauðsynlegur mánuður því það þarf að minna fólk á að fylgjast með eigin heilsu. Ég tek þetta alla leið, mæti í bleiku, er með bleiku slaufuna á mér, kveiki á bleikum kertum og skreyti. Svo minni ég alla á að styrkja Krabbameinsfélagið og Ljósið því þeirra starf er ómetanlegt og hjálpaði mér mikið,“ segir hún.
Heiða er bjartsýn á framhaldið.
„Nú er ég laus við krabbameinið og er að vinna mig upp hægt og örugglega. Ég er ekki lengur Heiða sem fékk krabbamein, nú er ég bara ég og er spennt fyrir framtíðinni.“
Umhverfis- og öryggisvika Daga var haldin dagana 2.–6. desember með það að markmiði að efla öryggis- og umhverfisvitund starfsfólks með fræðslu og nærandi samveru.
500 stærstu 2023/2024, bók Frjálsrar Verslunar, kom út í síðustu viku. Þar ræddi Pálmar Óli Magnússon, forstjóri Daga, við blaðamann um þróun starfsemi fyrirtækisins á undanförnum árum.
Dagar hafa endurnýjað samning sinn við íslenskunámsappið Bara tala vegna mikillar ánægju starfsfólks. Bara tala byggir á gervigreind og íslenskri máltækni sem gerir notendum kleift að æfa íslensku í gegnum samtöl og fá endurgjöf í rauntíma.